Félag stjórnmálafræðinga
Velkomin á heimasíðu Félags stjórnmálafræðinga
Miðvikudagur, 27. nóvember, 2024: Hvert stefna stjórnmálin? Samtal milli fræðinga og frambjóðenda
(smellið á myndina fyrir nánari upplýsingar)
Hvert stefna stjórnmálin eiginlega? Um hvað eru flokkarnir í raun og veru ósammála? Eru íslensk stjórnmál að verða málefnalegri eða persónubundnari? Eru skyndikosningar og svakalegt fylgisflakk orðin nýju normin? Verður einhvern tímann aftur lognmolla…?
Á þessum kosningaviðburði munu stjórnmálafræðingar og frambjóðendur stjórnmálaflokkanna koma saman til að ræða þessar og fleiri spurningar!
Viðburðurinn mun byrja á kynningu frá rannsóknarteymi Íslensku Kosningarannsóknarinnar (ÍsKos) á niðurstöðum rannsókna þeirra á íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi. Í kjölfarið munu þau sitja fyrir svörum, þar sem frambjóðendur flokkanna og aðrir viðstaddir munu spyrja þau út í viðfangsefnið.
Síðan verður dæminu snúið við - þá fáum við frambjóðendur flokkanna til að sitja (eða standa) fyrir svörum, þar sem sérfræðingarnir og aðrir viðstaddir munu spyrja út í þeirra sýn á stefnu íslenskra stjórnmála!
Frá ÍsKos mæta Ólafur Þ. Harðarsson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, Eva Heiða Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði, og Jón Gunnar Ólafsson, lektor í fjölmiðlafræði. Fulltrúum allra flokka sem bjóða fram á landsvísu hefur verið boðið að senda fulltrúa (sjá FB-síðu viðburðarins með uppfærðum lista yfir þau sem hafa staðfest þátttöku).
Dagsetning og tími: Miðvikudaginn, 27. nóvember, kl. 20:00-22:00 Staðsetning: Stúdentakjallarinn (Háskólatorgi, Sæmundargötu 4, 102 Reykjavík)
Að fundinum standa Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Politica - Félag Stjórnmálafræðinema og Mundus - Félag Framhaldsnema í stjórnmálafræði.
Drykkir í boði meðan birgðir endast!
Fundurinn er opinn öllum og mun fara fram á íslensku. Aðgangur er ókeypis.
Um Félag stjórnmálafræðinga:
Félag stjórnmálafræðinga er fagfélag stjórnmálafræðinga á Íslandi. Meginmarkmið félagsins er að efla veg greinarinnar í hvívetna. Þessi síða er hugsuð sem vettvangur stjórnmálafræðinga. Öll sem lokið hafa prófi í stjórnmálafræðum frá viðurkenndum háskóla eru gjaldgeng í Félag stjórnmálafræðinga.