Félag stjórnmálafræðinga
Velkomin á heimasíðu Félags stjórnmálafræðinga
Mánudagur, 13. maí, 2024: Hlutverk forseta og kosningabarátta: Sameinandi afl, leiðtogi þjóðar eða áhrifavaldur?
(smellið á myndina fyrir nánari upplýsingar)
Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála standa fyrir hádegisfundi um hvert er hlutverk forseta Íslands og kosningabaráttuna sem nú er í gangi mánudaginn 13. maí kl.12:00-13:00 í Odda 101, Háskóla Íslands.
Um þessar mundir fylgjast væntanlega margir spenntir með kosningabaráttu frambjóðenda til forseta þar sem þeir kynna sig og sínar áherslur. Á þessum hádegisfundi verður velt upp mikilvægum spurningum um hvert er hlutverk forseta Íslands og hvaða máli skiptir kosningabaráttan. Skiptir persóna og bakgrunnur forseta máli, og hvað er það í fari frambjóðenda sem höfðar til kjósenda? Á forseti fyrst og fremst að vera sameinandi afl, hefur forseti veruleg völd (t.d. samkvæmt stjórnarskrá) eða er forseti fyrst og fremst áhrifavaldur um þau mál sem forseti telur mikilvæg hverju sinni? Hvaða máli skiptir embættið fyrir íslensk stjórnmál og hvaða merkingu hefur það þegar talað er um að forseti eigi að vera öryggisventill á ákvarðanir stjórnvalda?
Þátttakendur í pallborði verða þau Bryndís Ísfold, stjórnmálafræðingur og stjórnendaráðgjafi, Eva H. Önnudóttir, prófessor við HÍ, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emerítus og Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor við HÍ. Umræðustjóri verður Svanhildur Þorvaldsdóttir, formaður Félags stjórnmálafræðinga og lektor við HÍ.
Fundurinn er opinn öllum, aðgangur er ókeypis og mun fara fram á íslensku.
Um Félag stjórnmálafræðinga:
Félag stjórnmálafræðinga er fagfélag stjórnmálafræðinga á Íslandi. Meginmarkmið félagsins er að efla veg greinarinnar í hvívetna. Þessi síða er hugsuð sem vettvangur stjórnmálafræðinga. Öll sem lokið hafa prófi í stjórnmálafræðum frá viðurkenndum háskóla eru gjaldgeng í Félag stjórnmálafræðinga.